föstudagur, 21. mars 2014

Hamingjudagurinn

Í gær var hamingjudagurinn (hef engar opinberar heimildir um þetta aðra en Facebook). Ég hef rekið mig á að hamingja er ekki flókin og framkallast af einföldustu hlutum. T.d. getur einn góður kaffibolli veitt manni stóran hamingjuskammt. Tala nú ekki um ef hann er drukkinn í góðum félagsskap. Lesa góða bók. Eyða tíma með þeim sem manni þykir vænt um. Hlæja yfir góðum sjónvarpsþætti. Klappa ketti eða koma einhverjum til að brosa. Sofandi börn framkalla óstjórnlega hamingju. Og svo mætti lengi telja. En það sem gerir mig hamingjusama í dag er að vera ekki lengur á ferðalagi með ormana heldur vera komin heim í heiðardalinn minn, Santa Monica. Við vorum í San Francisco í 5 daga á hóteli. Fínasta hóteli og við höfðum það gott. En það er jafn gaman að koma heim eins og það var að fara. Amma sagði að það væri það besta við ferðalög. Og nú erum við komin heim, vel útsofin eftir nótt í eigin rúmi og ég hlakka til að borða eitthvað úr eldhúsinu mínu í kvöld. Það er nefninlega ótrúlegt hvað möguleikar á að fá sómasamlegan mat á ferðalögum takmarkast þegar velja þarf barnvæna veitingastaði. Labbaði framhjá óteljandi spennandi og áhugaverðum stöðum en þorði ekki inn á neinn með skrímslaherdeildina mína (ég kallaði dætur  mínar þetta einhverju sinni í sakleysislegum tóni en aðrir hafa gripið þetta á lofti og vísa svona til okkar fjölskyldunnar). Og afhverju eru alltaf svona ógeðslegir réttir á barnamatseðlum? Þeir eru nánast alltaf eins:

Grilluð ostasamloka með óhóflegu magni af smjöri og lélegum osti á hvítu endurvinnsluóhæfu brauði. Stundum henda þeir fröllum með.

Pasta. Og til að krydda það upp má velja um parmesan pasta eða tómatsósupasta.

Barnahamborgari og fröllur. (Væntanlega aðeins verra kjöt sett í ormana en fullorðna)

Kjúklinganaggar og fröllur.

Og svo er stundum viðbót á matðseðlinum sem er barnapizza með osti eða pepperoní.

Ég átta mig á að börn geta verið matvönd og foreldrar vilja umfram allt bara að barnið borði. En er í alvörunni ekki hægt að gera betur fyrir þessi kríli? Í það  minnsta gefa þeim eitthvað með næringu? Mér dettur strax í hug lasagna sem ég held að langflest börn borði með bestu lyst. Og þar má lauma allskonar grænmeti ofan í þau. Hvað með kjúklingatacos þar sem þau fá fullt af litlum skálum með úrvali hráefna og mjúkar taco kökur og geta fyllt sjálf af því sem þau langar í? Er það ekki frekar einfalt í framkvæmd? Það er vinsælt hér hjá mér og aftur leið til að fá þær til að borða aðeins af grænmeti.

En nóg af tuði. Ég var að segja eitthvað um hamingju. Já. Í dag fæ ég fiðring í  magann við að borða heimaeldaða máltíð. Ætla að prófa nýja uppskrift, kíkja í fiskbúðina í bænum og sjá hvað þeir bjóða upp á og elda hann a la Nanna Rögnvaldar. Farin út í búð!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli