mánudagur, 10. mars 2014

Allir vegir færir!

Jæja, náði bílprófinu í morgun. Þ.e.a.s. Kalifornísku bílprófi. Þeir vilja nefninlega ekki viðurkenna íslenskt bílpróf hér, né raunar bílpróf úr öðrum fylkjum Bandaríkjanna einu sinni. Enda þegar um er að ræða Gullríkið hlýtur að þurfa gullbílpróf. Dugar ekkert minna.


Þetta gerðist ekki átakalaust samt. Blóð, sviti, tár, stress og svefnleysi að baki. Fyrst ófáar klukkustundir að lesa sér til um lög og reglur á vegum Gullríkisins, hversu mörg prómill má hafa í blóði við akstur, hraðatakmörk, akstur yfir lestarteina og allskonar fínerí. Svo eru það einhverjar klukkustundir sem safnast saman hjá DMV í bið eftir einu eða öðru. Því það er alltaf bið á DMV, sama þó maður eigi bókaðan tíma. Svo var það langt og strangt skriflegt próf sem gekk líka svona glimrandi vel. Bókaði mér slott í verklegt próf og mætti hóflega bjartsýn. Eftir næstum klukkutíma bið var komið að mér. Það var heldur skammvinnt. Prófdómarinn áttaði sig á að ég var einungis með númeraplötu aftan á bílnum en ekki að framan og sú sem átti að vera framan á var heima. (Skal tekið fram að þetta klúður skrifast á eiginmanninn og hann fékk tiltal þegar heim var komið!) Send heim til að panta nýjan tíma.

Mæti í nýjan tíma og fæ að taka próf. Hefði betur sleppt því. Náði hliðarskvettu af rúðuspreyji á prófdómarann þegar ég átti að sýna honum rúðuþurrkuhæfni mína. Leit ekki nógu vel til vinstri og hafði ekki nógu langt bil á milli bíla. Já og féll. Sjibbí. Með 16 villur en má ekki hafa fleiri en 15.

Bókaði mér enn eitt slottið í próf og mætti. Sat á bæn um að fá góðan prófdómara og hrósaði happi þegar sá sem prófaði eiginmanninn kom upp í bíl. Það var enginn fengur í honum. (Hann fór mjúklega með eiginmanninn, reyndi við hann, fylgdist ekkert með akstri hans heldur nýtti tímann til að spjalla og gaf honum að endingu broskall og símanúmerið sitt í lokin) Hann sat stjarfur aksturinn á enda og sagði ekki orð fyrir utan leiðbeiningar um hvort beygja ætti til hægri eða vinstri. Í lok aksturs sagði hann mér ekki hvort ég hefði náð eða fallið en bað mig um að elta sig inn á skrifstofu og það var þar sem ég komst að því að ég hafði jú náð prófinu. Herregud. Ég var nánast farin að ofanda þarna af stressi en hann var ekkert að deila gleðifréttunum fyrr en ég hreinlega spurði hann á biðstofunni hvort ég hefði náð. Þá kinkaði hann kolli og ég sem beið eftir lúðrum, blöðrum og mögulega blómum...

En prófið er ég nú með! Og get nú skammlaust ekið um vegi Gullríkisins með pappírinn í vasanum... Watch out!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli