miðvikudagur, 23. apríl 2014

Beverly Hills 90210

Þegar ég var krakki voru ekki margar reglur en þær reglur sem voru var eins gott að virða. Ein af þeim var að vera til friðs þegar pabbi horfði á sjónvarpsfréttirnar. Þetta var helg stund og ekkert mátti raska ró hans. Mér gekk ágætlega að halda þessa reglu allt fram að því að Stöð 2 hóf göngu sína og fór að keppa við sjónvarpsfréttirnar með einhverju sem höfðaði frekar til mín.

Uppáhalds þátturinn var Beverly Hills 902010. Hvernig er líka annað hægt en að halda upp á þessa þætti? Þeir voru á dagskrá ef ég man rétt á miðvikudags kvöldum, á sama tíma og fréttirnar á RÚV auðvitað. Það var ómögulegt að semja við pabba um að sleppa fréttum og leyfa mér að horfa. Sama hvað ég suðaði og tuðaði, pabbi bara gaf sig ekki.

Svo datt ég í lukkupottinn. Stóri bróðir fékk bílpróf og fór að vinna fyrir sér sem pizzasendill á kvöldin. Hann var með sjónvarp í sínu herbergi og pizzuafganga sem hann tók með sér heim úr vinnunni á kvöldin. Þau voru ófá kvöldin sem ég sat í rúminu hans, horfði á BVH 902010 og hakkaði í mig gamla pizzu. Eini gallinn á gjöf Njarðar var áleggið sem hann valdi sér á pizzuna á þeim tíma. Hann borðaði alltaf pizzu með pepperoní, lauk og grænum pipar. Það var mikil nákvæmnisvinna að plokka piparinn og laukinn af og stundum bar græðgin mig ofurliði og ég lét mig hafa það að bryðja piparinn. Bestu kvöldin voru þau þegar það voru nammiafgangar til viðbótar við pizzuna í herberginu.

Þetta voru dýrmætar stundir 11 ára gamallar stúlku. Ég lærði óteljandi hluti, ekki bara um ástina og unglingaveikina heldur um alkahólisma, fátækt, kynferðislegt ofbeldi, átröskun, svik, framhjáhöld, námsdugnað og svo margt fleira. Ég lærði líka ýmislegt um bróðir minn með því að gramsa í herberginu hans á meðan ég borðaði pizzuna. (Ekki vorkenna honum, hann las dagbækurnar mínar af miklum móð þrátt fyrir að þær væru læstar með lykli.)

Um helgina gerðist svo svolítið dásamlegt. Við skruppum í ægilega fína verslunarmiðstöð hérna sem heitir The Grove og eyddum dágóðum tíma í Barnes & Noble (mamma og pabbi eru í páskaheimsókn hjá okkur og urðu að sjálfsögðu að komast í bókabúð). Á leið niður úr barnadeildinni bendir eiginmaðurinn mér á risavaxið skilti. Á skiltinu var verið að auglýsa viðburð sem ég get ekki látið framhjá mér fara. 14. maí næstkomandi verður Jason Priestle í búðinni og áritar nýútkomna ævisögu sína.

Þeir sem ekki horfðu á þættina vita auðvitað ekkert hvað ég er að tala um. Jason lék Brandon. Hann og tvíburasystir hans Brenda voru aðalsöguhetjurnar í þáttunum svo og vinir þeirra, Steve, Kelly, Donna, David, Dylan og Andrea. Brandon var góði strákurinn og andstæða hans, Dylan, leikinn af Luke Perry, alkahólísku vinurinn með alvarlegt "bad boy syndrome". Ég elskaði þá til skiptist. Og þann 14. maí hitti ég Jason. Ég veit ekki hvað mun fara okkur á milli en ef það líkist eitthvað unglingsdraumum mínum ætti eiginmaðurinn að vara sig!

miðvikudagur, 16. apríl 2014

Sif í jóga, það er eitthvað...

Ég hef aldrei verið mikil jógamanneskja. Prófaði óléttujóga á sínum tíma og átti svo bágt með mig að ég varð frá að hverfa. Ég er hreinlega of sjálfmeðvituð manneskja til að geta setið með fólki og kyrjað. Í óléttujóganu áttum við að hafa eina hendi á hjarta og aðra á bumbunni og kyrja eitthvað fagurt um það að við værum alheimsmæður. Og eftir þá æfingu mætti ég aldrei aftur. Er þetta ekki vandræðalegt? Hvernig á maður að geta gert þetta án þess að springa úr hlátri?



Hér í Santa Monica eru fleiri jógastúdíó en matvörubúðir. Í alvöru. Önnur hver manneskja sem labbar framhjá mér er með jógamottu í hendinni og ef maður ætlar að vera maður með mönnum þá er maður í jóga. Þannig að ég skellti mér í gær. Byrjendajóga í ræktinni minni hér í borg. Góð og slakandi lykt í salnum, kennarinn virkaði fyndinn og hress og þetta leit bærilega út. En svo kom í ljós að 70% bekkjarins voru reynsluboltar sem stóðu á haus milli æfinga og beygðu sig og teygðu í allskonar áttir sem getur bara ekki verið náttúrulegt fyrir líkamann. Og svo var það hann Horatias vinur minn. Hann gerði alltaf umfram æfingar. Alltaf einu stigi lengra en kennarinn lagði til. Svo bað kennarinn um uppástungu að jafnvægisæfingu. Og hvað gerði hann? Jú hann stakk upp á að við gerðum æfingu sem ég komst að því að heitir Bird of Paradise. Það er ekki byrjenda jafnvægisæfing get ég sagt ykkur - sjá mynd. Skemmst frá því að segja að hann gerði þessa æfingu á báðum fótum og skellti sér svo í eina höfuðstöðu og eitthvað fleira meðan við aumingjarnir lágum í köðli á gólfinu.

Maður byrjar niðri á jörðinni og lyftir sér svo upp í þessa stöðu á einum fæti. Eruð þið að grínast?

En svo fattaði ég hvað Horatias var að gera. Munið þið eftir Friends þættinum þar sem Monica, sem var kokkur á frábærum veitingastað, skellti sér á námskeið sem var "Eldað fyrir byrjendur"? Og Joey henti sér í "Acting for beginners". Þetta var til að efla sjálfstraustið hjá þeim, vera bestur í bekknum. Ég hef sumsé Horatius grunaðan um þetta. Hann er örugglega búin að æfa jóga frá því hann fæddist en fer reglulega í byrjendatímana til að upplifa sig miklu betri en alla, nefnir svo einhverjar fáránlegar æfingar og hlær innan í sér meðan við nýgræðlingarnir nánast drepum okkur við að reyna.

En þetta var ekki það sem reyndi mest á mig í þessum tíma. Ég skemmti mér bærilega þar til að æfingunni var að ljúka. Þá tóku þau upp á að kyrja. Og ég áttaði mig enn og aftur á að þrátt fyrir að vera sú alversta í bekknum og mása og blása tímann í gegn þá er það þar sem ég dreg mörkin. Ég bara get ekki setið og kyrjað með fólki. Ég fæ kjánahroll niður eftir öllu bakinu og verð eins og vandræðalegur unglingur, flissa innan í mér og hef mig alla við að flissið berist ekki upp á yfirborðið.
En það þýðir ekkert að gefast upp, ég verð að komast yfir sjálfa mig. Það er nefninlega sjúklega mikið af frægu fólki í jóga. Ef ég ætla að uppgötvast í Hollywood þá hlýt ég að verða að gera þetta. Ég ætla því að bíta á jaxlinn og henda mér í jóga aftur í næstu viku. Vona bara að Horatias sé að pirra einhverja aðra en mig þá.

Namaste!


fimmtudagur, 10. apríl 2014

Það sem ég er að lesa núna

Ég er í æðislegum bókaklúbbi, hef sagt frá honum áður á blogginu mínu. Hann er heldur óvenjulegur og gengur undir nafninu "Read Between the Wine". Hugmyndin er að meðlimir (við erum 12) komi hver með eina bók og eina vínflösku á hvern fund. Bókina velur maður sjálfur, einhver bók sem mann langar til að ferðist innan hópsins. Við skiptumst svo á að segja frá bókinni sem við komum með á milli þess sem við drekkum vín og í lok kvölds velur maður eina bók til að fara með heim og lesa. Á næsta fundi kemur maður svo með bókina til baka, vonandi lesna, og segir frá sinni upplifun af bókinni og setur svo aftur í bunkann. Og svona gengur þetta áfram. Markmiðið er að spjalla um bækur með skemmtilegu fólki úr ólíkum áttum. Og vonandi hafa lesið 12 nýjar bækur í lok árs. Það má líka bæta bókum í hrúguna, ég er búin að setja 2 bækur frá mér í hauginn. Ég er bundin við að bækurnar séu á ensku að sjálfsögðu og valdi mér 2 þýðingar sem ég las á íslensku en keypti á ensku og setti í bunkann. Sú fyrsta sem ég fór með var Kvöldverðurinn eftir Herman  Koch og sú seinni var HHhH eftir Lauren Binet.


Næsti hittingur er á morgun. Og ég er langt komin með bókina sem ég valdi síðast. Hún er heldur óvenjuleg og heitir The Beautiful Cigar Girl: Mary Rogers, Edgar Allan Poe, and the Invention of Murder og er eftir Daniel Stashower. Bókin fjallar um morð sem framið var í New York í kringum 1840. Morðið var í öllum fjölmiðlum á þeim tíma og endaði svo í skáldsögu eftir Poe. Ég hef ekkert lesið um Poe eða eftir Poe. Þekking mín á honum er eingöngu úr þáttaröðum og bíómyndum um fjöldamorðingja sem nýta sér verk Poe sem réttlætingu á gjörðum sínum (Sjá The Following sem dæmi). Mig langaði því til að sjá hvort þessi bók myndi kveikja í mér og ég myndi gerast Poe aðdáandi og kannski í framhaldinu ganga í sértrúarsöfnuð.

Grunnurinn að sögunni er mjög áhugaverður. Mary Rogers flutti ung til New York ásamt mömmu sinni. Hún á að hafa verið fegurst fljóða, vann í sígarettubúð og var tilbeðin af viðskiptavinum hennar sem og öðrum karlmönnum NY borgar. Eina nóttina skilar hún sér ekki heim. Lík hennar finnst örfáum dögum síðar í Hudson ánni. Morð hennar varð fjölmiðlum endalaus uppspretta greina þar sem hvert blaðið á fætur öðru kepptist við að leysa ráðgátuna með litlum árangri og hvert manndómsmorðið á fætur öðru var framið.

Stashower byrjar á að segja baksögu Poe sem á að baki erfiða æsku og ef mögulegt er enn erfiðari fullorðinsár. Mamma hans deyr úr berklum þegar hann er ungur. Rík fjölskylda tekur hann að sér en milli heimilisföðursins og Poe ríkir mikil togstreita sem endar illa, Poe arflaus og skuldugur upp fyrir haus. Harmi hans líkur ekki þar, hann á erfitt uppdráttar og áfengið fer illa með hann auk þess sem ung kona hans fær líka berkla sem dregur hana að endingu til dauða. Þeir sem þekkja verk hans vita þetta eflaust allt saman en ég vissi ekkert! Svo rekur Stashower sögu Mary fram að andláti og við tekur svo morðrannsóknin. Poe flækist inn í málið sjálfviljugur. Árið áður hafði hann skrifað leynilögreglusögu um lögguna Dupner. Sú saga þykir vera fyrsti vísirinn að leynilögreglusögum eins og við þekkjum þær. Hann ákveður að setja Dupner í að leysa morðið á Mary Roger og skrifar um það skáldsögu. Sagan birtist í þremur hlutum í kvennablaði árið 1942 og þó um skáldskap sé að ræða þá eru tengingar milli morðsins á Mary Rogers og Mary Roget fjölmargar og ekki fer á milli mála um hvern er skrifað. Poe lætur Dupner leggja til ýmsar úrlausnir á morðinu en festir sig ekki við neina þeirra. Lögreglunni í New  York tókst ekki heldur að leysa málið og morðið á Mary Rogers er því enn óleyst.

Efniviðurinn hljómar mjög spennandi. Og kannski hefði mér þótt þetta áhugaverðara ef ég þekkti betur til Poe. Vandamál mitt var að mér fannst textinn frekar þurr og fræðilegur og furðu stirður miðað við efnið. Ég get ekki sagt að ég sé spenntari en áður að lesa Poe þó eflaust eigi ég eftir að gera það á endanum.


Þrátt fyrir að vera ekki ýkja hrifin af bókinni þrælaði ég mér í gegnum hana, allt fyrir bókaklúbbinn. Ég vil jú vera viðræðuhæf á morgun.

Ég hugsa að ég setji ekki nýja bók í bunkann á morgun heldur láti nægja að tala um Poe bókina. En ég er að hugsa um að taka bók eftir íslenskan höfund eftir það. Þá er að komast að því hvað er til í enskri þýðingu. Ábendingar vel þegnar.

mánudagur, 7. apríl 2014

Jörðin skelfur


Ég elska stórslysamyndir. Myndir þar sem móðir náttúra tekur völdin og allt stefnir í tortímingu mannkynsins. Ýmist út af hræðilegum hvirfilbyl, flóðbylgjum af áður óþekktri stærðargráðu, veðurfarsbreytingum sem breyta heiminum í ísklump eða stórum loftsteini sem mun skella á jörðinni af slíku offorsi að engum verður þyrmt. Nema þá kannski sjarmerandi veðurfræðingnum/jarðfræðingnum/sérfræðingnum í hvirfilbyljum og litlu fjölskyldunni hans. Þau lenda stanslaust í hættu en rétt svo lifa þetta allt saman af og enda á að bjarga heiminum. Hvað get ég sagt, það er eitthvað ótrúlega spennandi og hættulegt við að horfa á þessar myndir. Eða mér fannst það alveg þangað til mér fór að líða eins og ég byggi í senu fyrir stórslysamynd.

Hér hefur skolfið hressilega að þeim finnst undanfarnar vikur. Skjáfltar með reglulegu millibili, um 4-5 á richter. Ég hef reyndar ekki fundið fyrir einum einasta, var í San Francsico þegar einn stór átti sér stað og í Boston þegar annar lét í sér heyra. En æsifréttirnar af skjálftunum hafa svo sannarlega ekki farið framhjá mér. Hér eru nokkur dæmi um fyrirsagnir sem við höfum séð hér í Los Angeles Times undanfarið:


Daglega eru einhverjar fréttir af þessu tagi og einhver tölfræði sem ég sá spáði því að ef skjálfti af almennilegri stærð kæmi þá mætti eiga von á að milli 3000 - 18000 manns myndu týna lífi sínu fyrir utan billjón dollara tjón. Ástæðuna segja þeir vera að hættusvæðið liggi m.a. í gegnum Downtown LA sem og að á hættusvæðinu séu ógurlega mörg illa hönnuð/gömul hús sem þola ekki svona skjálfta. Jahá. Best að þvælast ekki of mikið í Downtown semsagt.

Ég ætlaði mér, verandi Íslendingur, að taka hugsunarháttinn "þetta reddast" á málið í heild sinni. Það hefur verið röflað ógurlega um Suðurlandsskjálftann heima.Og svo missi ég alltaf af þessum skjálftum, var erlendis þegar stóru skjálftarnir komu heima og hef verið í burtu hér þegar skolfið hefur af einhverju ráði. Ég hélt ég myndi komast upp með þetta kæruleysi! Þangað til að eiginmaðurinn kom heim eftir vinnu einn daginn hálf miður sín. Hann hafði valdið skjálfta í vinnunni þegar hann gerði grín að jarðskjálftahræðslu þeirra sem og þráhyggju þeirra fyrir birgðasöfnun ef til skjálfta kæmi. Skemmst frá því að segja að þeir hafa ekki húmor fyrir þessu. Og nú verðum við að koma okkur upp þessu sem þeir kalla "natural disaster emergency supplies".

Ég hef því eytt ófáum mínútum inni á heimasíðu Ríkisstjórnarinnar til að afla mér upplýsinga um hvað eigi að vera í birgðunum. Og það er ekkert lítið sem maður þarf að vera með: 1 gallon af vatni per heimilismeðlim á dag og lágmark að eiga birgðir í 3 daga. Sumir pakka allt að  2 vikna birgðum. Matur, 2 tegundir af útvörpum (eitt venjulegt og eitt sem þeir kalla veðurútvarp, veit ekki hvað það er), batter, vasaljós, teip, ruslapokar, teppi, föt, birgðir, reiðufé (því hraðbankar hætta víst að virka), sjúkrakassi og svo mætti lengi telja. Þetta mun taka ógurlegt pláss. Í dag bættust svo við 2 ný ráð í sarpinn fyrir birgðirnar. Annarsvegar að skella með eins og einum kassa af rauðvíni og hinsvegar að yfirgefa ekki svæðið. Það er víst alþekkt að fólk keppist við að losa sig við fasteignir eftir svona stórar hamfarir og þá er tækifæri til að moppa upp húsi/húsum. Leigjendur flýja nefninlega svæðið og fasteignaeigendur sitja uppi með tómar eignir og lán sem þarf að borga. Og þá er að undirbjóða. En hvað ætli ég þurfi þá eiginlega mikið cash í kassanum til að geta keypt eins og eitt hús? Þá vitið þið það. Við Arnar, ef almættið lofar, munum sitja með rauðvínsglas í hendi og skoða fasteignaauglýsingar ef svo hræðilega fer að skjálftinn stóri láti sjá sig.

mánudagur, 31. mars 2014

Af bókum og Boston

Ég er algjör bókanörd. Það segir sig kannski sjálft? Ég hef verið svona frá því ég man eftir mér. Sem krakki fannst mér skemmtilegast að týna mér í heimi bókanna. Ein af uppáhalds minningum mínum er af bókamarkaði þegar hann var á 3ju hæð í Kringlunni. Pabbi fór með mig og gaf mér ákveðna upphæð og ég mátti kaupa það sem ég gat fyrir peninginn. Þvílík gleði! Ég var líka tíður gestur á bókasöfnum, sérstaklega Aðalsafninu þegar það var í ævintýrahúsinu í Þingholtunum. Þar var yndislegt að vera og ég labbaði alltaf út með hámarkið sem mátti fara með, 10 bækur. Einu sinni birtist ég meira að segja í blöðunum vegna bókaáhugans. Þá vann ég lestrarkeppni sem haldin var í Melaskóla. Ég las ógurlegt magn blaðsíðna og mest af öllum börnum á landinu ef ég man rétt. Þetta var á þeim tíma sem ég byrjaði að fá áhuga á ævisögum fólks og las ævisögu John Lennon og grét yfir endinum. Ég á það nefninlega til að gráta yfir bókum. Og hlæja yfir bókum. Vera hugsi yfir bókum. Fá bækur á heilann. Taka söguhetjur inn í hjartað á mér. Já að lesa er að lifa og hananú!

Svo eru bækur líka góð leið til að kynnast fólki og þekkja það betur.Þegar ég kem heim til fólks í fyrsta sinn þá skoða ég bókahillur þess. Engin betri leið til að átta sig á fólki en skoða hvað það er að lesa. Og ekkert finnst mér betra en lykt af bókum og lykt úr bókum. Lykt úr nýprentaðri og nýopnaðri bók minnir á jólin, gamlar bækur minna á lyktina heima hjá ömmu og afa þegar ég var lítil og lykt úr kiljum minnir á sumar, sól og stundum sand líka.

Að fara í bókabúð fyrir mig er eins og að fara í kirkju. Get gleymt mér þar tímunum saman ef ég fæ tækifæri til og ég labba sjaldnast tómhent út. Ég ferðast líka í gegnum í þær, það er alltaf stór partur af ferðalögum að heimsækja bókabúðir.  Og nú er ég nýkomin heim frá Boston. Þvílík borg fyrir bókafíkla. Þar úir og grúir af bókabúðum. Stórum og smáum, gamaldags og nýtískulegri. Meira að segja ein sem seldi ekkert nema ljóð. Og ég var með besta ferðafélaga sem bókafíkill gat óskað sér! Annan bókafíkil! Ný bókabúð var því heimsótt á hverjum degi. Skemmst frá því að segja að ég kom heim með fulla tösku af bókum. Ekki bara fékk ég veglega bókasendingu frá Íslandi heldur keypti ég vænan skammt til viðbótar (sjá mynd!). Og allskonar bækur.




Hér eru nokkrir titlar sem rötuðu með heim frá Boston.

Vatnið eftir Guðmund Pál Ólafsson

Já. Það hljómar kannski fáránlega að láta drösla slíkum doðranti alla leið frá Íslandi til Los Angeles. Og kannski finnst ykkur enn brjálæðislegra ef ég segi ykkur að þetta er í annað sinn sem það er gert. Því að ég gaf fyrri bókina sem kom í hús. Ég fylgdist aðeins með útgáfuferli bókarinnar úr fjarlægð. Hann var langur og strangur enda um algjört stórvirki að ræða. Ég vissi að ég yrði að eignast hana um leið og hún kæmi út. Og ekki veitir mér af í öllum þessum þurrki hérna í Kaliforníu að eiga stórvirki um Vatn.

Is Everyone Hanging Out Without Me eftir Mindy Kaling

Ég hef aðeins horft á þættina The Mindy Project og haft gaman af. Fyndnir þættir. Mindy Kaling er grínisti sem hefur skrifað fyrirThe Office (bandarísku útgáfuna) ásamt því að leika sjálf í þáttunum og byrjaði sumsé síðan með sína eigin þáttaröð sem nefnd er hér að ofan. Ég las bókina á leiðinni frá Boston til LA og verð að viðurkenna að ég var ekki nógu hrifin. Kannski bara of mikið af því góða, ég veit það ekki. En margir kaflar fyndnir enda skortir hana ekki húmorinn.

Me Talk Pretty One Day eftir David Sedaris

Boston ferðafélaginn kynnti mig fyrir David Sedaris á síðasta ári. Lánaði mér þessa bók sem sat óhreyfð á náttborðinu þar til ég skilaði henni ólesinni þegar við fluttum. Þegar ég var á ferðalagi og vantaði eitthvað að lesa rakst ég á aðra bók eftir höfundinn í bókabúð, Lets Explore Diabetes with Owls, keypti og las upp til agna. Frábær penni! Hann er kaldhæðinn, ferlega fyndinn og skemmtilegur en snertir samt við manni. Sögur hans af fjölskyldunni hans eru stórkostlegar! Hlakka til að byrja á nýju bókinni.

Are You Smart Enough to Work at Google? eftir William Poundstone

Þessa keypti ég handa eiginmanninum en hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ekki að eiginmanninn vanti starf. Hann er auðvitað í starfi. En hugsaði með mér að hann gæti lesið þessa og rifjað upp ferlið í atvinnuviðtölunum sem hann fór í á síðasta ári fyrir vinnuna sem hann er í núna. Það var nefninlega ekkert grín. Ótal mörg viðtöl og sum þeirra ansi löng og ströng. Sum í gegnum síma frá Íslandi til Los Angeles og sum svo hér í borg. Mér er minnistætt þegar hann lauk einu klukkustundar löngu símtali og kom út náfölur enda hafði þetta tekið hressilega á.  Ég reikna með að græða líka á því að lesa bókina enda hef ég aldrei farið í alvöru atvinnuviðtal. Eyddi síðustu 10 árum í að vinna fyrir pabba minn og man ekki eftir atvinnuviðtali fyrir það. Nýja starfið er svo mömmustarfið og þar eru engin inntökupróf heldur snýst þetta eingöngu um það að þeir hæfustu lifi af. Þannig að ég les bókina og landa svo starfi hjá Google eftir það. Bíðið bara!

Í töskunni voru ótal fleiri titlar sem ég segi ykkur kannski meira frá seinna. Ég er farin að lesa!






laugardagur, 22. mars 2014

Þau eru komin á slóðina...

Einhverjir muna kannski eftir þessari færslu frá mér! Þar játaði ég á mig óhóflega vatnsnotkun og lofaði bót og betrun. Af því hefur enn ekki orðið. Jú, ég er kannski ogguponsu betri. En ég fer samt í langar sturtur, þvæ föt eftir notkun í einn dag, gleymi að skrúfa fyrir vatnið þegar ég vaska upp og bursta tennur. Og nú hefur komist upp um mig!

Við fjölskyldan skruppum áðan út í smá hjólaleiðangur. Dæturnar hjóluðu og við löbbuðum (og bárum hjól þeirra þegar þær nenntu ekki að hjóla). Þegar við komum heim aftur rákumst við á leigusalann okkar. Indæll maður, íranskur, sem hefur búið hér síðan um 1970. Rétt slapp við byltinguna minnir mig að hann hafi sagt. Mamma hans býr hérna við hliðina á okkur. Í gær kom mamma hans við hjá okkur og bað um að fá að skoða klósettin. Hún talar mjög litla ensku en gat komið á framfæri að hún vildi sjá klósettin og eitthvað um "too much water". Ekkert kom út úr þeirri heimsókn en ég nýtti tækifærið í morgun og spurði David (leigusalinn) um hvað málið snerist. Jú. Kemur í ljós að vatnsreikningur hússins hefur aukist óhóflega mikið undanfarið og engar skýringar finnast á málinu. Enn sem komið er leita þau skýringa í mögulegu sírennsli í einhverju klósetti, leka úr pípum eða öðrum vandamálum en ég er handviss um að á endanum muni þessi rannsókn leiða þau hingað á þrepið hjá mér. Úbbasa!

Og sem ég skrifa þessi orð stendur eiginmaðurinn við eldhúsvaskinn og bruðlar með vatnið meðan hann vaskar upp. Ég mun því óhikað vísa á hann þegar David birtist og rukkar okkur um alla vatnsnotkunina!!!

föstudagur, 21. mars 2014

Hamingjudagurinn

Í gær var hamingjudagurinn (hef engar opinberar heimildir um þetta aðra en Facebook). Ég hef rekið mig á að hamingja er ekki flókin og framkallast af einföldustu hlutum. T.d. getur einn góður kaffibolli veitt manni stóran hamingjuskammt. Tala nú ekki um ef hann er drukkinn í góðum félagsskap. Lesa góða bók. Eyða tíma með þeim sem manni þykir vænt um. Hlæja yfir góðum sjónvarpsþætti. Klappa ketti eða koma einhverjum til að brosa. Sofandi börn framkalla óstjórnlega hamingju. Og svo mætti lengi telja. En það sem gerir mig hamingjusama í dag er að vera ekki lengur á ferðalagi með ormana heldur vera komin heim í heiðardalinn minn, Santa Monica. Við vorum í San Francisco í 5 daga á hóteli. Fínasta hóteli og við höfðum það gott. En það er jafn gaman að koma heim eins og það var að fara. Amma sagði að það væri það besta við ferðalög. Og nú erum við komin heim, vel útsofin eftir nótt í eigin rúmi og ég hlakka til að borða eitthvað úr eldhúsinu mínu í kvöld. Það er nefninlega ótrúlegt hvað möguleikar á að fá sómasamlegan mat á ferðalögum takmarkast þegar velja þarf barnvæna veitingastaði. Labbaði framhjá óteljandi spennandi og áhugaverðum stöðum en þorði ekki inn á neinn með skrímslaherdeildina mína (ég kallaði dætur  mínar þetta einhverju sinni í sakleysislegum tóni en aðrir hafa gripið þetta á lofti og vísa svona til okkar fjölskyldunnar). Og afhverju eru alltaf svona ógeðslegir réttir á barnamatseðlum? Þeir eru nánast alltaf eins:

Grilluð ostasamloka með óhóflegu magni af smjöri og lélegum osti á hvítu endurvinnsluóhæfu brauði. Stundum henda þeir fröllum með.

Pasta. Og til að krydda það upp má velja um parmesan pasta eða tómatsósupasta.

Barnahamborgari og fröllur. (Væntanlega aðeins verra kjöt sett í ormana en fullorðna)

Kjúklinganaggar og fröllur.

Og svo er stundum viðbót á matðseðlinum sem er barnapizza með osti eða pepperoní.

Ég átta mig á að börn geta verið matvönd og foreldrar vilja umfram allt bara að barnið borði. En er í alvörunni ekki hægt að gera betur fyrir þessi kríli? Í það  minnsta gefa þeim eitthvað með næringu? Mér dettur strax í hug lasagna sem ég held að langflest börn borði með bestu lyst. Og þar má lauma allskonar grænmeti ofan í þau. Hvað með kjúklingatacos þar sem þau fá fullt af litlum skálum með úrvali hráefna og mjúkar taco kökur og geta fyllt sjálf af því sem þau langar í? Er það ekki frekar einfalt í framkvæmd? Það er vinsælt hér hjá mér og aftur leið til að fá þær til að borða aðeins af grænmeti.

En nóg af tuði. Ég var að segja eitthvað um hamingju. Já. Í dag fæ ég fiðring í  magann við að borða heimaeldaða máltíð. Ætla að prófa nýja uppskrift, kíkja í fiskbúðina í bænum og sjá hvað þeir bjóða upp á og elda hann a la Nanna Rögnvaldar. Farin út í búð!