sunnudagur, 29. september 2013

Status update 2 mánuðum fyrir brottför!



Visað komið í vegabréfið og fagurt er það. Fórum upp í Sendiráð til að ganga frá því. Á undan okkur í röðinni var Emiliana Torrini, ein af mínum uppáhalds. Íhugaði að segja: "Hey, við erum líka að flytja til USA, eigum við að vera vinkonur?" Hélt í mér og veit að minn eigins er feginn, honum finnst ég stundum svolítið vandræðaleg týpa.

Íbúðin seldist í vikunni, þurrkarinn og ísskápurinn með og þvottavélin er líka seld. Nóg er nú samt til elskurnar, ekki örvænta. Við bjóðum upp á dýrindis kaffivél, örbylgjuofn, sjónvarp, heimabíó og dvd spilara, einn öflugan bíl og svo margt margt fleira ;-) Segið bara hó ef ykkur vantar eitthvað! Bílinn má t.d. finna hérna: https://bland.is/classified/entry.aspx?classifiedId=1956214

Flugmiðar verða bókaðir í dag en brottfarardagar eru ákveðnir, eigins ætlar að fljúga 14. nóvember og mæta beint til vinnu 15. nóvember. Við stelpurnar erum komnar með yndislegan ferðafélaga, mammsan mín flýgur með okkur út 29. nóvember og mér tókst að selja henni þá snilldar hugmynd að vera bara svolítið áfram, pabbi bætist í hópinn rétt fyrir jól og mögulega litli bróðir og kærastan og við fáum því jólin með næstum allri familíunni, þarf að vinna betur í stóra bróður og co. Mjúk og góð lending sumsé fyrir okkur.

Tímabundið húsnæði í höfn, ca hér: http://www.oakwood.com/furnished-apartments/furnished/US/CA/Los-Angeles/prop11122.html?link=true&q=false . Gefur okkur tíma til að finna rétta húsnæðið fyrir okkur, þrátt fyrir alla tæknina í henni Ameríku er víst enn besti kosturinn að keyra um og finna "for rent" skilti og hreinlega bera sig svo eftir björginni. Áhugavert!


Við hjónin tókum svo skyndiákvörðun og ákváðum að troða inn í tight tímaplan einni hjónaferð til Barcelona, svona second honeymoon, til að rifja upp gamla tíma í Barce. Á dagskrá er heimsókn á uppáhalds steikhúsið, Xampagnerían okkar, endalausar gönguferðir um uppáhalds göturnar okkar, chocolate con churros, spila rommí á börunum sem voru í uppáhaldi og bara leiðast og vera væmin. Þannig að ef þið höndlið ekki væmnina er eins gott að vera ekki í Barcelona 1-5 nóv!

Einn af uppáhalds börunum, þessi er í eigu Manu Chao og við hjón komum þangað fyrst í Evrópureisunni miklu 2002

Ung og sæt í Barcelona 2007. Lifðum eins og kóngar á einum íslenskum launum í 6 mánuði (ó gullaldarárið!)


Þessa flösku er hægt að kaupa fyrir 2, 30 EUR og voru ófáar drukknar meðan við bjuggum í Barce, klassa staður sem við ráðleggjum öllum sem heimsækja borgina.

þriðjudagur, 3. september 2013

Fjölskyldan flytur...

Þrír mánuðir í brottför. Verkefnalistinn lengist. Sögðum stelpunum í dag frá því sem er framundan. SR: "afa, útlönd, afa" og fleiri voru þau orðin ekki. Bríet Jóhanna áttaði sig aðeins betur "Fyrst koma 2 mánuðir, svo ein vika, svo á pabbi afmæli og svo förum við... megum við núna horfa á sjónvarpið?" Þær taka þessu sumsé af stóískrí ró. Sem betur fer.


Fjölskyldan er sumsé að undirbúa flutning. Minns eigins kominn með vinnu í Santa Monica. Frúin ekki búin að fastsetja sér sín verkefni en hugmyndalistinn er að lengjast. Er að hugsa um að búa til mood board fyrir ævintýrið sem er framundan.



Ferlið hófst í apríl með atvinnuviðtali gegnum skype. Í júlí kom loks lendingin og þá tók við biðin mikla eftir pappírunum sem  lauk í síðustu viku og ljóst að stærstu hindranirnar væru þá frá. Þá var það stóra skref stigið að segja upp vinnunum. Eigins búinn að vera í 8 ár á sínum stað og ég á mínum tja, 12 ár með hléum hingað og þangað.

Og þá er að byrja með blogg. Svolítið úr tísku að blogga, en hugsa þetta sem eina leið fyrir ættingja og vini til að fylgjast með úr fjarska og svo fyrir okkur sjálf til að halda utan um þetta allt saman. Einskonar dagbók!

Brottfarardagarnir eru komnir eða svo gott sem, næsta skref, ganga frá pappírunum í Sendiráðinu og svo auðvitað að kaupa flugmiðana...

Svo er það spurningin um hvernig maður finnur jólaandann í sólinni?