föstudagur, 31. janúar 2014

Játningar vatnseyðsluseggs!

Hér í borg ríkti mikil gleði í gær. Afhverju? Jú af því það rigndi. Raunar mætti frekar tala um úða en rigningu en það nægði þó til að gleðja mannskapinn. Hér er nefninlega mesti þurrkur sem mælst hefur síðan sautjánhundruðogsúrkál. Undir venjulegum kringumstæðum er janúar mánuður frítími þeirra sem sinna skógareldum, varamannskapur sendur heim til sín og nokkrum starfsstöðvum lokað. En í ár er ástandið þannig að búið er að slökkva yfir 150 elda (þeir voru 25 fyrir sama tímabil í fyrra og 0 þar á undan) og enginn fær frí.

Og fólk er beðið um að spara vatn. Ekki list sem Íslendingar eru góðir í til að byrja með. Og ég gæti mögulega verið eitt versta dæmið. Ég er martröð borgarinnar í vatnsmálum, það get ég fullyrt. Fer í langar sturtur og læt vatnið renna meira að segja meðan ég sápa á mér hárið. Bursta tennur og vatnið rennur allan tíman á meðan. Ég er eins og atvinnumanneskja í vatnseyðslu. Gleymi að skrúfa fyrir í eldhúsinu. Þvæ vélar sem ekki eru alveg fullar, gleymi svo að tæma þær og þarf að skola úr aftur.  Og svona gæti ég haldið áfram.

Og nú biður Santa Monica borg íbúa og fyrirtækjarekendur að minnka vatnsneyslu sína um 20%. Og það verður að öllum líkindum ekki nóg, yfirvofandi eru takmarkanir á vatni um mögulega 15%. Eða því er borgarráð að hóta. Vatnsnotkun er nefninlega upp um 20% milli ára. Og borgin kaupir allt vatnið sitt frá stöðum þar sem miklir þurrkar eru og skortur yfirvofandi.

Hótel hér í borghefur brugðist við. Þar er keyrt á vatnslausum pissuskálum,  keyptar plöntur sem eru ekki mjög vatnsþyrstar og gestir hvattir til að endurnota allt tau. Veitingastaðir grípa til þess ráðs að hafa ekki vatn á borðum fyrir gesti heldur einungis koma með fyrir þá sem óska þess sérstaklega. Og reyna svo að fá þá frekar til að drekka vín... (spyr mig um heilsufarslegan kostnað við þann gjörning...) Pressa er sett á borgarstjórn um að setja reglur um stærð vatnsglasa á veitingastöðum. Og svo eru það blessaðir bændurnir sem þurfa að borga vatnið dýrum dómi til að geta ræktað og nóg er nú ræktað hér.

Já það er ástand. Og vatnsdrottningin skilur ekki alveg stærð málsins enda konungsdæmi mitt þekkt fyrir vatnið. Ég bíð bara eftir að mamma sendi mér stórvirkið Vatnið frá Íslandi og ætla mér að njóta þess að horfa á vatn og fræðast um vatn í þeirri dýrðar bók. En ég verð að hætta að láta kranann renna. Vera ábyrgur borgari. Sýna fordæmi. Temja mér nýja siði...

Þeir sem vilja lesa nánar um stóra vatnsmálið geta gert það hér:
 http://smdp.com/city-asks-residents-businesses-to-use-less-water/131683

föstudagur, 24. janúar 2014

Gleðin er í litlu hlutunum

Í gær rakst ég á hlut sem gladdi mig mjög og var það frekar óvænt. Hvað var það? Jú, hringtorg. Það fyrsta sem ég keyri í gegnum hér í borg. Og þar sem ég var þjáð af heimþrá í gær þá gladdi þetta mitt litla hjarta. Héðan í frá mun ég leggja mig fram um að keyra þessa leið til að keyra í gegnum hringtorg. Hér er allt vaðandi í stopp merkjum sem eru "all way" og svo þarf maður að meta hver kom fyrstur að línunni og hann á réttinn. Gagnlegt já, en stundum er maður ekki viss og vandræðagangurinn byrjar. Svipar svolítið til þegar maður ætlar að kyssa einhvern á vangann en báðir leggja til atlögu á sama tíma og allt verður svolítið vandræðalegt. Maður gefur í en snarstoppar. Sama gerir hinn aðilinn. Svo bíður maður aðeins og heldur að það sé verið að gefa manni séns svo maður gefur bílnum inn á nákvæmlega sama tíma og hinn aðilinn. Og áfram heldur sagan. Það er á þessum augnablikum sem ég sakna hringtorganna heima.

Já það eru litlu hlutirnir sem gleðja...

miðvikudagur, 22. janúar 2014

Lost in translation

Einu sinni bjó ég í Frakklandi. Ég var tvítug. Talaði frönsku frá morgni til kvölds, bjó með frökkum og talaði minna af öðrum tungumálum en frönsku. Hélt ég væri orðin altalandi vegna þessa. En svo rann stund sannleikans upp. Mér var misboðið og ég vildi rífast. Og hvað gerðist? Ég varð að málhöltum útlendingi sem gat ekki stamað upp úr sér einu einasta orði. Ég endaði á að ryðja út úr mér fúkyrðum á íslensku, það var það besta sem ég gat gert í stöðunni.

Nú bý ég í Bandaríkjunum. Ég er 33 ára. Ég tel mig vera frekar fyndna manneskju, kaldhæðin og húmorísk. En það virðist vera "glatað í þýðingu" og það þó þetta sé allt á ensku. Sem ég tala í alvörunni reiprennandi. Ég hendi fram hverjum kaldhæðna brandaranum á fætur öðrum en ekkert gerist. Jú, stundum fæ ég skringileg augnaráð.... ekki mikið meira en það. Ég býð ekki í það ef ég þyrfti að fara að rífast...

sunnudagur, 19. janúar 2014

Að aðlagast nýju lífu

Allt mitt fullorðinslíf hefur vinnan mín verið stór partur af sjálfi mínu. Spilað stóra rullu jafnvel aðalhlutverkið (áður en stelpurnar fæddust). Enda vinnan mín ein sú skemmtilegasta í heiminum, um það er ég sannfærð. Ég vann sko ekki lestrarkeppnina í Melaskóla fyrir ekki neitt. Ég elska bækur. Og að fá að vinna við þær eru algjör forréttindi. Ég sakna þess.

En það eru líka forréttindi að geta sinnt stelpunum svona vel. Ég átti ekki von á að kunna jafn vel við að vera heimavinnandi og ég geri. Þær bregðast vel við breytingunum, líður vel, brosa, hlæja og gleðjast. Selma hefur tekið heilmikið þroskastökk og Bríet líka. Þær eru ófeimnar við að nota þau orð sem þær hafa í ensku. Kveðja alla með orðunum "see you later" og segja thank you óspart hér og þar um bæinn.

En ég sakna þess að finna fyrir heilanum á mér í vinnu. Og þá er að leysa það. Planið, hvað er það? Jú. Kona er komin í 2 bókaklúbba. Kona er líka komin í current events hóp, þar hittumst við og ræðum um eitthvað ákveðið þema einu sinni í mánuði. Kona er áskrifandi að LA times og les það reglulega til að halda sér við efnið. Kona er líka að reyna að vera dugleg að lesa. Fyrst ég get ekki unnið við bækur, þá ætla ég að njóta þess að sinna bókum sem áhugamáli, það gat ég auðvitað ekki þegar ég var að vinna við bækur, allavegana ekki eins.




föstudagur, 10. janúar 2014

Með rakettu í rassgatinu...

Pabbi segir að ég sé með rakettu í rassgatinu og ég eigi að slaka á. Hinsvegar er ég ekkert rosalega góð í því, frekar en hann er sjálfur. Einkennir svolítið þessa fjölskyldu að geta aldrei gert nokkuð nema með offorsi. Svona var amma líka, algjör hamhleypa!

 Með rakettuna að vopni er ég komin langleiðina með kassana. En engar áhyggjur, nóg annað eftir, gera gestaherbergið klárt fyrir Mexíkó farana og finna stað fyrir öll málverkin. Í pósti í gær, já, pósti komu svo tvö hjól í frumeindum. Sjáið til, við keyptum þau á Costco.com og voru þau 400 USD ódýrari en það sem við sáum í búðinni og skýringin liggur einmitt í þessu með að  vera í öreindum sko.  Ég er stikkfrí í svona samsetningarmálum vegna fæðingargalla. Enginn í minni fjölskyldu hefur hæfileika í svona samsetningar, þau eru eftirminnileg jólin þar sem við systkinin fengum eitthvað sem þarfnaðist samsetningar því pabbi eyddi dögunum á eftir bölvandi og ragnandi við að reyna að tjasla þessu saman með mömmu á hliðarlínunni að gera illt verra. Við höfum því öll systkinin fundið okkur maka með prófgráðu í ikeasamsetningu.

Um síðustu helgi fórum við í pílagrímaferð til Austur Los Angeles, vinkona mín benti mér á fullt af vintage húsgagnabúðum þar sem við fórum að skoða og komum heim með þennan líka æðislega lampa og píanóstól. Hefðum getað skipt út búslóðinni fyrir fegurðina sem rak á fjörur okkar í þessari ferð en dollararnir hafa verið hræðilega fljótir að fjúka í flutningunum svo það verður að bíða betri tíma.


Í öðrum fréttum: Erum á leið í kvöldmat til nágrannanna í kvöld. Búa í íbúðinni á móti, svalirnar þeirra horfa út á pallinn okkar. Þar eru bresk hjón með 2 stráka sem eru jafngamlir stelpunum. Búin að búa hér í 6 mánuði en í Bandaríkjunum í 9 ár reyndar. Stelpurnar dýrka þessa stráka, halda sýningar á pallinum fyrir þá þegar þeir standa á svölunum og horfa og blaðra við þá á bullmáli sem inniheldur þau orð sem þegar eru komin á ensku. Samtalið lítur því ca svona út: blablablabla "see you later" blablablablablabla "sister" blablablablabla "Christmas" blablablablablablabla "thank you". Óheyrilega krúttlegt og svakalega fyndið og það finnst þessum ljúfu strákum líka sem skilja lítið í háværu dætrum mínum.