mánudagur, 24. febrúar 2014

Appelsína er ekki bara appelsína!

Að flytja frá Íslandi til Kaliforníu var stórt stökk og margt sem breyttist við það. Ein af stóru góðu breytingunum fyrir utan veðurfarið var að komast í hráefni sem í flestum tilfellum er svo miklu betra en það sem ég fæ heima.

Í hverri viku höldum við stelpurnar á Farmer's market og kaupum okkur grænmeti og ávexti. Þær sitja  með jarðaberjarautt andlit í kerrunni og æmta stöðugt á meira með hendur á lofti. Við kaupum jarðaber, hindber og bláber á markaðnum og stundum brómber. Við kaupum aspas í stórum stíl, rósakál, avócadóa, epli, tómata. Við kaupum bestu mandarínur sem ég hef smakkað sem eru líka þær ljótustu sem ég hef séð. Krumpaðar villa þær á sér heimildir og telja manni trú um að þær séu mögulega skemmdar en eru í rauninni safaríkar, steinalausar gleðisprengjur, ég sver það! Við skoðum og smökkum yfir 10 mismunandi tegundir af appelsínum, cara cara, navel og ég veit ekki hvað þetta heitir.

En nú tók steininn úr. Á markaðnum á laugardag heyrði ég konu tala um Sumo appelsínur við afgreiðslukonu á bás og þegar ég kom inn í Wholefoods sama dag var stór kista full af ljótum krumpuðum kvikyndum merkt Sumo. Af forvitni greip ég nokkrar og þegar heim var komið komst ég að því að enginn hefur borðað appelsínu fyrr en hann hefur smakkað þessa. Besta appelsína sem ég hef borðað á ævinni. Safarík, rétt hlutfall af sætu versus súru, auðvelt að taka utan af henni, auðveldara en að taka utan af mandarínu, engir steinar og fullkomið eftirbragð. Ég er búin að fara tvær ferðir eftir dásemdinni og það er um að gera að raða þessu í sig núna. Sumo appelsínan er nefninlega bara fáanleg í fjórar vikur á ári. Afbrigði sem var þróað í Japan og er selt þar dýrum dómum, aðeins ódýrari hér í USA. Fyrstu Sumo appelsínurnar urðu fáanlegar hér í kringum 2011 og vinsældirnar aukast bara. Herregud!




mánudagur, 10. febrúar 2014

Mínar eigin Feneyjar

Einu sinni var maður sem hét Abbot Kinney. Hann átti marga peninga sem hann græddi á tóbaki. Hann langaði í sinn eigin strandbæ. Og hann var hrifinn af Ítalíu. Og Feneyjum. Og úr varð Venice, CA.  Það er gott að eiga pening og land, þá getur maður gert allskonar. Þarna voru skrilljón kanalar en flestum þeirra var lokað í  kringum 1930 en enn standa þó nokkrir. Og það er svo miklu huggulegra þarna en í Feneyjum, Ítalíu. Engir að seilast eftir peningunum manns, enginn vondur matur, engir gondólar með túristum sem borguðu morðfjár fyrir lélegan söng og fúla lykt. Onei. Þetta eru íbúðarhverfi og einu túristarnir voru við. Það er ekki búið að verslunarvæða og túristavæða þetta en óneitanlega er svæðið samt rándýrt, svona ef mann langar að fjárfesta í fasteign. Mæli með þessari hérna, þar var opið hús í dag þegar við vorum á ferli, rak nú reyndar ekki nefið inn, þorði því ekki. Engar 500  milljónir á mínum bankareikning...

http://www.pardeeproperties.com/property-details.php?property_ID=669

En Venice er yndislegur staður til að eyða deginum á og ef ég ætti ekki börn þá myndi ég leitast eftir að búa þarna. Litrík heimili, fjölskrúðugt mannlíf, óvenjulegar verslanir og svo Abbot Kinney, gata full af sérvöruverslunum, galleríium, flottum veitingastöðum, hipsterum sem eru búnir að hipstera yfir sig, góðu kaffi og öllu öðru sem manni gæti dottið til hugar að eyða peningunum sínum í.

Við eyddum ljúfum sunnudegi þarna, byrjuðum á Café 50's, amerískum Diner þar sem við borðuðum yfir okkur og fórum svo og reyndum að vinna á morgunverðinum með göngu um Abbot Kinney, kanalana og Venice Beach. Venice Beach minnir helst á Stínu í Kaupmannahöfn, graslykt yfir öllu og svo úir og grúir af allskonar fólki. Þarna var furðufólks sýning, skeggjaða konan, ofurgataður og tattúeraður svartur maður sem var heldur í hærri kantinum og ófrýnilegur vegna andlitsskrautsins sem hann bar, graslykt yfir öllu, bás með sérhæfðum læknum sem geta veitt manni lyfseðil fyrir grasi ef vel er farið að þeim, sölubásar með allsskonar skrani og mannlíf sem er með því fjölbreyttara sem maður sér. Eldri borgarar á röltinu, steratröll í leit að Muscle Beach, barnafólk eins og við, ferðamenn, heimamenn, meðlimir í glæpagengjum, lögreglan, sölufólk og allt annað sem manni kemur til hugar...







sunnudagur, 9. febrúar 2014

Næstum til geimsins

Í gær heimsóttum við Vísindamiðstöð LA. Það var alveg stórmerkilegt. Þar eru geymdir allskonar gripir og vélarhlutar sem tengjast geimferðum Bandaríkjamanna auk þess sem geimskutlan Endeavour er þar. Ég sá litla skutlu sem notuð var til að skjóta sjimpansa út í geim áður en að fyrsti maðurinn flaug út. Ég sá pínulitla skutlu sem 2 menn eyddu þremur dögum í. Hún var svo lítil að ef þeir vildu standa upp þá þurftu þeir að "suit up" í geimbúningana sína og opna þakið. Fótaplássið sem þeir höfðu í þrjá daga var eins og plássið sem við bölvum í verstu flugferðum okkar. Þrjá daga! Úff, ég fékk innilokunarkennd við að horfa á þetta. Þeir svöruðu líka spurningunni sem flestir spyrja sig þegar það kemur að geimferðum... hvernig fer fólk á klósettið... jú, því fylgja slöngur í sumum tilfellum, kúkaplastpokar í öðrum, stundum þarf að binda sig niður út af þyngdarafli og fleira áhugavert.

Punkturinn yfir i ið var svo Endeavour. Bandaríkjamenn kunna að byggja upp stemmningu. Fyrst sýndu þeir stutta bíómynd um hinstu ferð Endeavour áður en sett var í "park". Það var ferðin af LAX og inn á safnið. Ekki svo langur akstur, einar 12 mílur, en tók 68 klukkustundir. Flaug sem búin var að fljúga 25 ferðir út í geim lenti sko í vandræðum í LA traffic. Ég skil það vel. Þessi umferð hérna er hálfgerð geimvísindi hvort sem er. Allavegana. Til að koma henni á áfangastað þurfti her manna, lögreglu, slökkvilið, rafvirkja, og ég veit ekki hvað marga verkfræðinga. Það þurfti að fella 400 ára gömul tré, taka rafmagn af hlutum borgarinnar meðan rafmagnslínur og staurar voru felldir, fóðra húshorn þar sem hætt var við að hún myndi rekast í og ég veit ekki hvað og hvað. 68 klukkustundir. Og á meðan stóð fjöldi manns á götum úti til að berja viðburðinn augum.

Svo kemur maður loks inn í flugskýlið þar sem skutlan stendur. Og þar blaktir Ameríski fáninn við hún og dramatísk tónlist hljómar undir. Og svo stendur skutlan þarna. Þetta risa tröll sem er svo illa farið að ég hefði ekki flogið með henni til Akureyrar.  Hún virðist plástruð saman. Og þetta flak flaug 25 sinnum út í geim frá árunum 1992-2011. En ég lét hrífast með. Hún fór út í geim sko! 25 sinnum. Og þarna stóð hún og ég líka. Litla ég og geimskutlan. Já sælir eru einfaldir!

laugardagur, 8. febrúar 2014

Bókaklúbburinn

Í gær var fyrsti í bókaklúbb. Vá hvað það var gaman. 10 einstaklingar, allsstaðar að úr heiminum. Hittast til að tala um bækur en ekki öll með einu og sömu bókina. Hvert okkar valdi eina bók og kom með. Svo sagði hver frá sinni bók og í lok kvölds fékk hver að velja sér eina bók af þeim sem sagt var frá og taka með. Í þetta sinn tók ég með mér hollenska bók, Kvöldverðinn eftir Herman Koch. Næst ætla ég að taka íslenskan höfund með mér. Með mér heim fékk ég höfundinn Anne Rice, bók sem heitir Blackwood Farm. Hef aldrei lesið bók eftir höfundinn þó ég hafi séð Viðtal við vampíru fyrir löngu síðan. Hér að neðan eru nokkur dæmi um bækur sem rötuðu á borðið. Það sem setti punktinn yfir i ið er að maður kom einnig með rauðvínsflösku og lagði á borð með sér og þannig varð þetta að bókar- og vínklúbbi, er hægt að biðja um það betra? Ég skemmti mér allavegana stórvel. Nú er það að lesa doðrantinn minn fyrir næsta hitting og svo er það hinn bókaklúbburinn sem er mun hefðbundnari, þar þarf ég að lesa Goldfinch eftir Donna Tartt, bara smábók það, yfir 700 blaðsíður.