þriðjudagur, 31. desember 2013

Senn líður árið

2013 já. Það var aldeilis árið. Verð ógurlega væmin þegar ég lít yfir árið sem er að líða. Það var fullt af dásamlegum dögum, samverustundum með frábæru fólki, fallegum orðum, vinum, dætrum, fjölskyldu og öllu hinu sem litar daga lífsins. Það voru áskoranir í prívat lífinu og vinnu lífinu. Ég uppfyllti draum sem ég lét þvælast fyrir mér allt of lengi og skellti mér í kór og maður minn hvað það er dásamlegt. Sigraðist á sjálfri mér oft á árinu og sannaði fyrir mér að ég get gert hér um bil hvað sem er. Dæturnar sigruðust líka oft á mér á árinu og sönnuðu fyrir mér að þær komast upp með nánast hvað sem er. Bríet Jóhanna varð 4 ára á árinu, fór í myndlistarskóla og kór eins og mamma sín. Selma Rún varð 2 ára í ágúst og vex á ógnarhraða. Hún byrjaði í leikskólanum með vorinu og er orðin altalandi. Dætur mínar gleðja mig alla daga og eiginmaðurinn líka. 2 símtöl fylltu mig ótrúlegri hamingju á árinu sem er að líða. Það fyrsta kom í lok sumars þegar mamma hringdi úr Skorradal. Randver karlinn minn var fundinn eftir næstum 2 mánaða fjarveru á gamals aldri. 19 ára gamall, gigtveikur og með sykursýki týndist hann snemma sumars og var sárt saknað en talinn af. Næsta símtal kom með fyrsta snjó vetrarins seint í október þegar Randver, þá týndur í næstum viku, fannst aftur, þá lagstur í miðbæjarlífið. Í þetta sinn hafði hann ekki verið talinn af beinlínis en því er ekki að neita að við vorum afar áhyggjufull. Allt þetta kattastand okkar fjölskyldunnar og starfsfólksins á Forlaginu vakti töluverða eftirtekt í fjölmiðlum og einhverjir höfðu uppi samsæriskenningar um að allt væri þetta partur af einhverri nýrri kattabók sem við hlytum að vera með í undirbúningi. Randver er nú öruggur á sínum heimaslóðum og heilsast vel miðað við aldur og fyrri störf og fyrir það er ég þakklát. Fjölgun var í stórfjölskyldunni þegar hann Kolur litli flutti inn á Bræðraborgarstíginn, hann er yndisköttur sem Selma Rún naut að kvelja meðan við bjuggum um stutta stund hjá mömmu og pabba áður en við flugum yfir til USA.

Með vori fengum við líka áhugaverðar fréttir sem áttu eftir að gjörbreyta því sem eftir lifði af þessu fína ári. Arnar fór í atvinnuviðtal hjá fyrirtæki í Santa Monica og við reiknuðum frekar með því að ekkert yrði úr því. Það var svo undir lok sumars sem líf okkar tók stefnubreytingu. Atvinnutilboð barst frá U.S.A. Og þá þarf að hrökkva eða stökkva. Eins og þið vitið þá stukkum við. Og hér erum við nú. 

Því fylgir tregi að flytja úr landi en líka eftirvænting og það er á þeim nótum sem ég tek á móti árinum 2014. Full eftirvæntingar yfir því sem nýja ævintýrið kann að bjóða upp á. En þakklát fyrir þetta frábæra ár sem nú er að líða.

Elsku vinir og fjölskylda. Takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Án ykkar væri þetta ekkert fjör! Gestasvítan að taka á sig mynd og bíður heimsókna. Við tökum við pöntunum núna!

Eftirminnileg hjónaferð til Barcelona skömmu fyrir flutning :) 

Bríet Jóhanna fær hópknús þegar hún kvaddi leikskólann á leið út á flugvöll 29. nóvember

Þetta á maður að minna sig reglulega á.

Systur glaðar í sólinni í Santa Monica

Hér fögnuðum við 5 ára brúðkaupsafmæli okkar í sumar, sumsé í Alsace héraðinu í France.

Bestu foreldrar í heimi í London á stórafmæli mömmu í byrjun árs.

Yndislegt sumarfrí í Sviss með fólkinu okkar þar.

Mæðgurnar.

Þessi er yndiskrútt, bestur allra katta. Þvílíkt sem hjartað í mér hoppaði á þessu ári vegna hans. 

Fyrsta leikhúsferð Selmu Rúnar á Dýrin í Hálsaskógi. Bríet sá sýninguna ekki nema 6 sinnum held ég.
Þessi eiga 12 ára sambands afmæli á nýja árinu og 6 ára brúpkaupsafmæli. Lífið hefur verið eitt ævintýri síðan ég kynntist honum þessum!


fimmtudagur, 26. desember 2013

Jóladagur í myndum og örfáum orðum!

Við hittum þennan jólasvein á ferðinni um Venice Beach. Jólasveinar hér þurfa að vera frumlegir í klæðaburði því það er of heitt fyrir hinn hefðbundna búning!

Jólagjöfin frá eiginmanninum, Marc Jacobs klikkar ekki!

Fyrsta sinn á Venice Beach, litríkt og skemmtilegt andrúmsloft þarna.

Ein jólselfie ;-)

Stoppuðum á róló fyrir systurnar.

Feðgar slappa af!

Mæðgurnar hressar

Þetta er tekið við Muscle Beach en þar var lokað á jóladegi, engin massatröll að skola.
Áttum ljúfan jóladag. Mamman las heila bók meðan dæturnar léku sér með jólagjafirnar. Afar afslappað. Nýttum einnig daginn í að keyra aðeins um Los Angeles því engin var umferðin aldrei þessu vant. Kíktum á Venice Beach og sáum krakka renna sér á sleðum á stórum sandhól en litum aðallega á mannlífið sem er ansi litríkt þar. Svo renndum við upp á Rodeo Drive, bara til að kíkja enda allar verslanir lokaðar. Afslappaður og góður dagur að baki og áfram heldur jólafríið í dag.


fimmtudagur, 19. desember 2013

Montessori leikskólinn og jólaboð Riot

Bríet í nýjum balletskóm, hún fékk líka nýja steppskó.
Í dag fékk Bríet inngöngu í þennan líka fína Montessori leikskóla hér í götunni. Hún byrjar 6. janúar og verður hálfan dag þar. Tilgangurinn að læra ensku og undirbúa sig undir 5 ára bekk eða Kindergarten eins og hann er víst kallaður hér. Henni leist prýðilega á skólann og allt gekk vel. Svo bauðst henni að vera eftir í stofunni eða koma með okkur í viðtal og valdi að verða eftir í stofunni. Við vorum í burtu í korter en þegar við komum aftur þá var litlan mín með tárin í augunum og fannst tíminn hafa verið


of langur. Tekur á að geta ekki tjáð sig við neinn í kringum sig.  Þetta var heilmikil ákvörðun að taka að setja hana í skólann enda mikil fjárfesting, við borgum háar fjárhæðir fyrir hálfan dag.

Mér skilst annars að í bekknum hennar séu börn tveggja Clipper spilara. Sel það ekki dýrara en ég keypti það, Arnar þurfti að segja mér hvað Clipper er (hitt körfuboltaliðið hérna í LA, NBA lið). Þannig að ég er að vonast eftir að komast á NBA leik í boði bekkjarsystkina Bríetar, sjáum hvernig mér gengur með það.

Ómögulegt að ná góðri mynd af systrum saman, önnur horfir alltaf frá myndavélinni
Í gær fórum við í jólaboð hjá Riot. Þar var ýmislegt gert til að koma manni í jólaandann, það voru carolers sem sungu jólalög hástöfum, skreytingar sem líktust snjó, jólasveinn, heitt kakó með sykurpúðum og piparmyntubrjóstsykri, kanilchurros, eggnog o.fl. Svo fékk maður coupon sem hægt var að nota í foodtrucks sem lagt var fyrir utan. Mjög spes! En börnin voru glöð og þá er björninn unninn, ekki satt?

Jólaboð hjá Riot
Nú teljum við niður í það að fá afann til okkar og svo litla bróður og kærustuna. Þá koma nefninlega jólin. Við heyrðum í dag af viðburði sem á sér stað á ströndinni hérna 25. des, leið Californíubúa til að komast í jólagírinn, jú, þá renna þeir sér á sleðum í sandhæðum sem eru búnar til fyrir tilefnið. Svo nú þarf ég að leita að sleðum. Mér datt ekki í hug að taka sleðana með frá Íslandi. Það gengur vonandi betur en þegar ég fór í dótabúð að leita að sandleikföngum fyrir dæturnar. Þar var horft undarlega á mig og mér tilkynnt að þannig hlutir væru jú seasonal og fengjust ekki á veturna. Og þetta segir hún og úti er 25 stiga hiti og á öllum rólóum er sandur. En kona kann að bjarga sér og keypti sandleikföng á amazon þar sem allt fæst og er sent heim að dyrum.


sunnudagur, 15. desember 2013

Þegar Sif tapaði kúlinu...

Um daginn ræddi ég fjálglega við Arnar um það hvernig ég myndi bregðast við ef við hittum hér einhverja stórstjörnuna. Ég var sannfærð um eigin töffaraskap og að mér myndi ekki finnast það neitt fáránlega merkilegt ef ég myndi þá á annað borð þekkja hana í sjón.

Í dag þurfti ég að éta þetta allt ofan í mig. Við ákváðum að fara í sunnudagsbrönch í nýja hverfinu okkar, á Montana götu sem er ein sú flottasta í bænum, við munum búa á horni 15th Street og Montana. Fann álitlegan stað á Yelp sem við notum mikið, Marmelade Café við 700 og eitthvað Montana. Inn komum við og mamma og Arnar byrja strax eitthvað að hvísla í áttina að mér. Ég er frekar sein að taka við mér en þegar ég geri það og sný mér við þá stendur þar Jamie Lee Curtis og er að kaupa sér take away rétti þarna á staðnum. Ég hefði getað rétt út hendina og komið við hana.

Fyrstu viðbrögð? Voru það þessi kúlheit sem ég spáði mér? Ó nei. Ég missti kúlið gjörsamlega. Skríkti og uppveðraðist öll og langaði mest að stökkva á grey konuna og biðja hana um að leyfa mér að taka af mér mynd með henni. Segja henni hvað ég elski A Fish Called Wanda mikið en að í laumi finnist mér samt True Lies myndin best og ég hafi horft á hana og Scwarzann dansa tangó í þeirri mynd oftar en ég kæri mig um að viðurkenna. Ég hélt þó því litla sem ég átti eftir af virðingu og settist við borðið og þóttist vera alvön svona stjörnufansi.

En litla Sif dansaði innan í sér af hamingju yfir því að eiga þess kost að grípa í konuna og dansa smá tangó, True Lies style!

föstudagur, 13. desember 2013

Jól í öðru landi

Ef ekki væri fyrir dagsetninguna á dagatalinu hefði ég ekki hugmynd um að það séu að koma jól. Allt sem ég tengi við jól og upplifi jólalegt er mér nú víðsfjarri. Jólin tengi ég sterkast við jólabækurnar, vinnuálag þeim tengt, spenning og vangaveltur yfir metsölulistum, sölutölum og öðru sem fylgir vertíðinni. Næst þar á eftir er myrkrið frá morgni til kvölds og þar á eftir er það kuldinn.

Ekkert af þessu að finna hér í Santa Monica, lífið frekar afslappað, allir dagar sunnudagar eins og amma sagði stundum eftir að hún hætti að vinna. Veðrið dásemdin ein. Glampandi sól alla daga nema einn síðan við komum, hitastig upp undir 20 gráðurnar í kringum hádegi. Grænn gróður og gróðurlykt allt um kring. Engar jólabækur, nema helst í bókabúðinni en þar er afslappað andrúmsloft. Jólagjafirnar hafa flestar verið keyptar, bara ektamaðurinn eftir eða svo gott sem. Gjafirnar flestar pantaðar heima í stofu og sendar heim að dyrum, eða þær sem vantaði upp á þegar hingað var komið svo ekki get ég stressað mig upp yfir þeim innkaupum. Og hvernig í ósköpunum á ég þá að finna jólaandann?

Jú, við borðum mandarínur, smákökur voru að koma úr ofninum. Við fórum á jólaball, tölum um jóalsveinana daglangt og hlustum á íslensk jólalög af miklum móð í bílnum. Kveikjum á aðventukertum, lesum Jólin koma og aðrar jólabækur, kíkjum á jólaskrautið í bænum og jólasveininn sem á heima í húsi við enda göngugötunnar og stoppum vi'ð jólaskreytt hús sem eru  þó ekki svo mörg hér í bænum, rafmagn er dýrt sjáiði til! Næst á dagskrá er að byrja að horfa á jólamyndirnar mínar. Ætli það verði ekki The Holiday, National Lampoons Christmas Vacation, Love actually og Home Alone.

Vandamálið er bara að þetta er svo svakalega ósannfærandi, ég bara næ ekki að telja mér trú um að jólin séu að koma...

miðvikudagur, 11. desember 2013

813 15th Street

Heimilisleitin fór undarlega af stað. Skoðuðum 7 mislélegar eignir. Teppi vaðandi um allt og engin þvottavél í íbúð heldur ein vél og þurrkari sem þjónustaði kannski 8 eða fleiri íbúðir og kostaði meira en dollar fyrir hverja vél og þá átti eftir að splæsa í þurrkara. Ég var orðin áhyggjufull, vægast satt.

Þá kom himnasending til okkar, leigumiðlari sem Riot er með á sínum snærum. Og þvílíkur munur. Hún lóðsaði okkur um 6 eignir, allar góðar, 5 þeirra með þvottaaðstöðu innan íbúðar, allar með okkar eigin patio, eitt raðhús eða condo held ég að þeir kalli það, eina eign sem var eins og skriðin út úr amerískri bíómynd frá 1960 með viðarpanel um alla veggi og svona. Munurinn á því sem hún hafði upp á að bjóða og það sem hafði verið prangað inn á okkur í gegnum Craigslist og aðrar leigumiðlanir á vefnum var ótrúlegur, þetta voru algjör (afsakið orðbragðið) hellholes sem við vorum að skoða... hjúkk að við fengum hana til að hjálpa!

Síðasta íbúðin sem við skoðuðum var eignin þar sem okkur langaði mest í þó aðrar væru líka möguleikar í stöðunni. Við sóttum um og fengum, hittum nýja landlordinn okkar í gær, yndislegur maður af evrópskum uppruna og mamma hans býr í húsinu svo að hægt er að treysta því að byggingin er góð. Engin teppi, þvottavél og þurrkari í íbúð og svo stærri vél og þurrkari í bílskúr fyrir stærri loads eins og hann sagði, ef maður þarf að þvo rúmföt eða annað. Þrjú heil svefnherbergi og þrjú baðherbergi, öll lítil en það gildir einu í mínum huga. Eignin öll á einni hæð til viðbótar. Arinn í stofunni og rúsínan í pylsuendanum er svo sannarlega risavaxið patio þar sem við getum látið fara vel um okkur og haft grill, hjólin okkar og kerru stelpnanna á. Staðsetningin er dásamleg og svo akkúrat fyrir okkur, miðsvæðis, við stóra fallega verslunargötu þar sem er að finna allskonar fínar búðir, kaffihús, veitingastaði og það besta, hinu megin við götuna frá mér er mín eigin Wholefoods!

Nú tekur við biðin eftir gámnum, íbúðina fáum við afhenta 20. desember og gámurinn kemur vonandi milli jóla og nýárs og þá flytjum við rakleitt inn enda tímabundna húsnæðið hlaðið teppum og alls ekki jafn skemmtilega staðsett og hin íbúðin þó það sé raunar 2 mínútna labb héðan fyrir Arnar í vinnuna.

Arnar fær svo hjól á nýja staðnum og hjólar í vinnuna, það er um 8 mínútna hjólatúr sem ætti ekki að vera mikið mál í góða veðrinu!

Eldhúsið, rafmagnseldavél.

Viðarísskápur, hvað er hægt að biðja um meira?

Aðeins hluti af risastóra pallinum sem við erum með og er alveg afgirtur!

Held þetta sé úr gestasvítunni okkar sem er rúmgóð og fín

Stofan og borðstofan innan af henni. Arinn aðskilur rýmin tvö, gasarinn.

Borðstofan okkar

Þetta er fataskápurinn í gestasvefnherberginu held ég.

fimmtudagur, 5. desember 2013

Þotuþreyta og fyrstu dagarnir

Nú held ég að sál og líkami séu loks bæði sameinuð hér í Santa Monica, þotuþreytan hefur gefið eftir og allir orðnir líkir sjálfum sér.

Ferðalagið gekk vonum framar, allir til friðs, stelpurnar sváfu og þess á milli dunduðu þær sér og voru bara glaðar og spenntar. Það voru svo fagnaðarfundir á LAX þegar við hlupum í fangið á pabbanum.

Fyrstu dagarnir hafa verið ákaflega ljúfir, bærinn er fallegur og veðrið gott. Hér eru nánast engin háhýsi, húsin eru 3 hæða yfirleitt og allt grænt og gróið hér. Fólk er fáránlega mikið klætt miðað við veðrið, en ætli við verðum ekki komin í dúnúlpu næsta vetur, orðin vön hitanum og farin að finnast 15 gráðurnar skítakuldi...

Á hverjum degi gerum við eitthvað til að færa okkur nær samfélaginu, um helgina var það Wholefoods og Costco, Arnar eyddi 2 tímum í gær í að sækja um Social security og í dag fer ég í bankann og fæ debitkort.

Þó við séum fjarri Hollywood er hún áþreifanleg hér, sérstaklega í húsinu hjá okkur þar sem Universal hefur hér aðsetur og hangi ég lon og don á hurðarhúninum þar í von um að hitta einhvern sem uppgötvar mig, nú eða bara einhvern frægan ;-) Til viðbótar eru hér ófá tónlistarstúdíó, held það séu ein 6 í byggingunni svo ég reyni líka að gaula mikið þegar ég er að labba hér í kring, þetta er jú land tækifæranna og maður veit aldrei hvenær maður verður uppgötvaður eða hvernig, ég meina Justin Bieber uppgötvaðist í gegnum youtube myndbönd af barnaskemmtunum hans!

Ég hef mína eigin mamms mér til halds og trausts hér fyrstu vikurnar sem hefur verið ómetanlegt fyrir okkur stelpurnar, er að reyna að koma henni almennilega á bragðið svo hún flytji bara með mér.

Við erum svo að rembast við að vera jólaleg, finnst það frekar undarlegt, enda veðrið ekki mjög jóló... en ég spila íslensk jólalög í bílnum og syng þau milli þess sem við lesum jólalegar bækur og skoðum jólaskraut á götunum sem sólin glampar á. Undarlegt dæmi!

En meira síðar!

Sagði einhver Baywatch?
Miðbærinn við sólarlag

Þessi mynd er tekin í garði hjá vinnunni hans Arnars. Á morgnanna eru tai chi æfingar í þessum garði.

Dæturnar njóta sín vel hér, enda nóg af athygli og umhyggju




Baywatch skýlið, Hasselhoff var ekki á vakt þennan dag!


Ég og Universal, stutt í að kvikmyndaferillinn byrj