mánudagur, 31. mars 2014

Af bókum og Boston

Ég er algjör bókanörd. Það segir sig kannski sjálft? Ég hef verið svona frá því ég man eftir mér. Sem krakki fannst mér skemmtilegast að týna mér í heimi bókanna. Ein af uppáhalds minningum mínum er af bókamarkaði þegar hann var á 3ju hæð í Kringlunni. Pabbi fór með mig og gaf mér ákveðna upphæð og ég mátti kaupa það sem ég gat fyrir peninginn. Þvílík gleði! Ég var líka tíður gestur á bókasöfnum, sérstaklega Aðalsafninu þegar það var í ævintýrahúsinu í Þingholtunum. Þar var yndislegt að vera og ég labbaði alltaf út með hámarkið sem mátti fara með, 10 bækur. Einu sinni birtist ég meira að segja í blöðunum vegna bókaáhugans. Þá vann ég lestrarkeppni sem haldin var í Melaskóla. Ég las ógurlegt magn blaðsíðna og mest af öllum börnum á landinu ef ég man rétt. Þetta var á þeim tíma sem ég byrjaði að fá áhuga á ævisögum fólks og las ævisögu John Lennon og grét yfir endinum. Ég á það nefninlega til að gráta yfir bókum. Og hlæja yfir bókum. Vera hugsi yfir bókum. Fá bækur á heilann. Taka söguhetjur inn í hjartað á mér. Já að lesa er að lifa og hananú!

Svo eru bækur líka góð leið til að kynnast fólki og þekkja það betur.Þegar ég kem heim til fólks í fyrsta sinn þá skoða ég bókahillur þess. Engin betri leið til að átta sig á fólki en skoða hvað það er að lesa. Og ekkert finnst mér betra en lykt af bókum og lykt úr bókum. Lykt úr nýprentaðri og nýopnaðri bók minnir á jólin, gamlar bækur minna á lyktina heima hjá ömmu og afa þegar ég var lítil og lykt úr kiljum minnir á sumar, sól og stundum sand líka.

Að fara í bókabúð fyrir mig er eins og að fara í kirkju. Get gleymt mér þar tímunum saman ef ég fæ tækifæri til og ég labba sjaldnast tómhent út. Ég ferðast líka í gegnum í þær, það er alltaf stór partur af ferðalögum að heimsækja bókabúðir.  Og nú er ég nýkomin heim frá Boston. Þvílík borg fyrir bókafíkla. Þar úir og grúir af bókabúðum. Stórum og smáum, gamaldags og nýtískulegri. Meira að segja ein sem seldi ekkert nema ljóð. Og ég var með besta ferðafélaga sem bókafíkill gat óskað sér! Annan bókafíkil! Ný bókabúð var því heimsótt á hverjum degi. Skemmst frá því að segja að ég kom heim með fulla tösku af bókum. Ekki bara fékk ég veglega bókasendingu frá Íslandi heldur keypti ég vænan skammt til viðbótar (sjá mynd!). Og allskonar bækur.




Hér eru nokkrir titlar sem rötuðu með heim frá Boston.

Vatnið eftir Guðmund Pál Ólafsson

Já. Það hljómar kannski fáránlega að láta drösla slíkum doðranti alla leið frá Íslandi til Los Angeles. Og kannski finnst ykkur enn brjálæðislegra ef ég segi ykkur að þetta er í annað sinn sem það er gert. Því að ég gaf fyrri bókina sem kom í hús. Ég fylgdist aðeins með útgáfuferli bókarinnar úr fjarlægð. Hann var langur og strangur enda um algjört stórvirki að ræða. Ég vissi að ég yrði að eignast hana um leið og hún kæmi út. Og ekki veitir mér af í öllum þessum þurrki hérna í Kaliforníu að eiga stórvirki um Vatn.

Is Everyone Hanging Out Without Me eftir Mindy Kaling

Ég hef aðeins horft á þættina The Mindy Project og haft gaman af. Fyndnir þættir. Mindy Kaling er grínisti sem hefur skrifað fyrirThe Office (bandarísku útgáfuna) ásamt því að leika sjálf í þáttunum og byrjaði sumsé síðan með sína eigin þáttaröð sem nefnd er hér að ofan. Ég las bókina á leiðinni frá Boston til LA og verð að viðurkenna að ég var ekki nógu hrifin. Kannski bara of mikið af því góða, ég veit það ekki. En margir kaflar fyndnir enda skortir hana ekki húmorinn.

Me Talk Pretty One Day eftir David Sedaris

Boston ferðafélaginn kynnti mig fyrir David Sedaris á síðasta ári. Lánaði mér þessa bók sem sat óhreyfð á náttborðinu þar til ég skilaði henni ólesinni þegar við fluttum. Þegar ég var á ferðalagi og vantaði eitthvað að lesa rakst ég á aðra bók eftir höfundinn í bókabúð, Lets Explore Diabetes with Owls, keypti og las upp til agna. Frábær penni! Hann er kaldhæðinn, ferlega fyndinn og skemmtilegur en snertir samt við manni. Sögur hans af fjölskyldunni hans eru stórkostlegar! Hlakka til að byrja á nýju bókinni.

Are You Smart Enough to Work at Google? eftir William Poundstone

Þessa keypti ég handa eiginmanninum en hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ekki að eiginmanninn vanti starf. Hann er auðvitað í starfi. En hugsaði með mér að hann gæti lesið þessa og rifjað upp ferlið í atvinnuviðtölunum sem hann fór í á síðasta ári fyrir vinnuna sem hann er í núna. Það var nefninlega ekkert grín. Ótal mörg viðtöl og sum þeirra ansi löng og ströng. Sum í gegnum síma frá Íslandi til Los Angeles og sum svo hér í borg. Mér er minnistætt þegar hann lauk einu klukkustundar löngu símtali og kom út náfölur enda hafði þetta tekið hressilega á.  Ég reikna með að græða líka á því að lesa bókina enda hef ég aldrei farið í alvöru atvinnuviðtal. Eyddi síðustu 10 árum í að vinna fyrir pabba minn og man ekki eftir atvinnuviðtali fyrir það. Nýja starfið er svo mömmustarfið og þar eru engin inntökupróf heldur snýst þetta eingöngu um það að þeir hæfustu lifi af. Þannig að ég les bókina og landa svo starfi hjá Google eftir það. Bíðið bara!

Í töskunni voru ótal fleiri titlar sem ég segi ykkur kannski meira frá seinna. Ég er farin að lesa!






1 ummæli: