laugardagur, 22. mars 2014

Þau eru komin á slóðina...

Einhverjir muna kannski eftir þessari færslu frá mér! Þar játaði ég á mig óhóflega vatnsnotkun og lofaði bót og betrun. Af því hefur enn ekki orðið. Jú, ég er kannski ogguponsu betri. En ég fer samt í langar sturtur, þvæ föt eftir notkun í einn dag, gleymi að skrúfa fyrir vatnið þegar ég vaska upp og bursta tennur. Og nú hefur komist upp um mig!

Við fjölskyldan skruppum áðan út í smá hjólaleiðangur. Dæturnar hjóluðu og við löbbuðum (og bárum hjól þeirra þegar þær nenntu ekki að hjóla). Þegar við komum heim aftur rákumst við á leigusalann okkar. Indæll maður, íranskur, sem hefur búið hér síðan um 1970. Rétt slapp við byltinguna minnir mig að hann hafi sagt. Mamma hans býr hérna við hliðina á okkur. Í gær kom mamma hans við hjá okkur og bað um að fá að skoða klósettin. Hún talar mjög litla ensku en gat komið á framfæri að hún vildi sjá klósettin og eitthvað um "too much water". Ekkert kom út úr þeirri heimsókn en ég nýtti tækifærið í morgun og spurði David (leigusalinn) um hvað málið snerist. Jú. Kemur í ljós að vatnsreikningur hússins hefur aukist óhóflega mikið undanfarið og engar skýringar finnast á málinu. Enn sem komið er leita þau skýringa í mögulegu sírennsli í einhverju klósetti, leka úr pípum eða öðrum vandamálum en ég er handviss um að á endanum muni þessi rannsókn leiða þau hingað á þrepið hjá mér. Úbbasa!

Og sem ég skrifa þessi orð stendur eiginmaðurinn við eldhúsvaskinn og bruðlar með vatnið meðan hann vaskar upp. Ég mun því óhikað vísa á hann þegar David birtist og rukkar okkur um alla vatnsnotkunina!!!

2 ummæli:

  1. Sóley bað mig að skila þessu til þín Sif. https://www.youtube.com/watch?v=GNGc9zmpK5M

    SvaraEyða