mánudagur, 17. mars 2014

The city by the bay

Síðustu dagar í borginni við flóann hafa verið notalegir en fjölskyldan lúin og minnsta dýrið sturlað af óþekkt sem er aldrei hressandi, hvað þá þegar maður er utan þægindarammans. Skrifast mögulega á Terrible two's eða þá að hún finnur lykt af ótta (sökum þess að við erum ekki á heimavelli) og nýtir sér það. Hvað sem öðru líður þá líst mér stórvel á þessa borg.

Það er líka svolítið sjokk að koma hingað úr verndaða umhverfinu sem Santa Monica er. T.d. hefur nefinu mínu ítrekað verið misboðið undanfarna daga. Hér er meiri graslykt en í Stínu og meiri pissulykt en var á klósettinu á Hlemmi.

Miðbærinn er stórundarlegur því að ef maður beygir til hægri er hægt að velja úr Barneys, Macys, Bloomies og öðrum dýrari sjoppum en ef maður beygir til vinstri þá eru það smoke shops og dópistar með krakkpípur.  Margt evrópskt í henni, til að mynda gatnakerfið sem flækir tilveruna aðeins. Sjáið til, í Santa Monica er þetta allt í stærðfræðinni, götur ganga upp, mikil rökvísi á bak við allt en hér er þetta þvers og kruss og við ekki enn búin að átta okkur alveg. Ófáar vitlausar beygjur verið teknar í þessari ferð.


Litadýrðin dásamleg og arkitektúrinn æði. Kaffið himneskt. Útsýnið er óviðjafnanlegt og allt svo mikilfenglegt. Brekkurnar jafn frábærar og þær eru hræðilegar, veltur á því hvort maður er labbandi eða keyrandi. Ef keyrandi þá er útsýnið dásamlegt en ef labbandi þá blótar maður meðan kerrunni er ýtt af öllu afli með ormunum tveimur innan borðs. Ég hef aldrei séð brekkur eins og þessar inni í miðri borg, kannski í einhverju fjallaklifri úti á landi en aldrei nokkurn tímann í borg. Hallinn er svakalegur. Og fólk býr þarna í miðjum brekkunum. Sjitt hvað það hljóta allir að vera með flotta rassa hérna. Hef ekkert verið að horfa á þá ennþá, einbeitt mér að útsýninu en þarf klárlega að leggjast í rassa rannsóknir til að sanna kenningu mína. Tók líka eftir einu sem mér finnst mjög áhugavert, hér er engin bókabúðakeðja, sem er ótrúlegt. Meira að segja í Santa Monica erum við með tvíhöfða ofurskrímslið Barnes and Noble, samt er það bara 80 þúsund manna þorp. Hér er hinsvegar allt vaðandi í litlum krúttlegum og sérhæfðum bókabúðum sem sumar hverjar eru líka útgáfur.

Hvert hverfi hefur svo sitt einkenni og sinn eigin persónuleika: Beat hverfið, Mission hverfið, Kína hverfið, Downtown, Franska hverfið o.s.frv. Mission hverfið í sérstöku uppáhaldi, þar er hvert veggja listaverkið á fætur öðru, dásemdar veitingastaður og súkkulaðisjoppur.





Næstu daga verðum við stelpurnar svo upp á eigin spýtur, eiginmaðurinn á ráðstefnu og við bíllausar í miðbænum. Búin að sjá nokkra staði sem við getum dundað okkur við, t.d. Children's Discovery Museum og heila búð með engu nema Hello Kitty dóti sem ætti að halda þeim uppteknum í þó nokkurn tíma. Niðurstaðan er sú að borgin er ákaflega sjarmerandi en sennilega betri barnlaus. Hér eru nefninlega spennandi veitingastaðir, kaffihús og barir og ekkert af því sérstaklega barnvænt fyrir utan það nú að drösla þessari kerru upp og niður hæðirnar. Draumurinn er því að koma næst hingað annaðhvort með börn sem ganga fyrir eigin vélarafli sem skyndilega verða svo vel upp alin að hægt verður að fara með þau á almennileg veitingahús eða enn betra, barnlaus!




Engin ummæli:

Skrifa ummæli