miðvikudagur, 12. mars 2014

Að heimsækja lækni í nýju landi...

Ókei. Það má ýmislegt segja um Ísland. Pólitíkin glötuð, niðurskurður á öllum vígstöðvum og kemur hræðilega niðurá stöðum og stofnunum sem mega síst við því. Sigmundur Davíð og allt hans fylgdarlið ekki minn tebolli takk fyrir. Fíla ekki hugmyndafræðina á bak við peninga sem deilt er út á vini og vandamenn í gegnum sms án þess að umsóknir séu einu sinni á bak við styrkina. Veðrið ekki frábært og eflaust mætti týna fleira til.

En ég hef að ég held aldrei fengið eins mikla heimþrá eins og undanfarna daga. Sakna Íslands nógu mikið til að vilja knúsa SD og þá er fokið í flest skjól.

Við erum að skrá Bríeti í skóla. Það hefur ýmislegt hressandi í för með sér. Innskráningarpakkinn fyrir barn í 5 ára bekk telur 15 blaðsíður held ég. Óteljandi form sem þarf að fylla út. Einnig þarf að fara með hana til læknis og tannlæknis.

Ókei. Ákveð að drífa læknisheimsóknina af. Ég er sú eina af fjölskyldunni sem hefur farið til læknis só far í Ameríkunni og það gekk bærilega. Ég var því óvenju bjartsýn þegar ég hringdi á læknastöðina okkar í gær. "Mam we only have appointments for new patients in May" var svarið sem þar tók á móti mér. Augljóslega gengur það ekki upp, ég þarf að skila umsókninni með læknisvottorði í apríl. Þá þarf að hringja í tryggingarfyrirtækið sitt og fá úthlutað nýjum lækni sem getur hitt mann fyrir skiladag pappíranna.

Að tala við skriffinnskuapparat hér í Ameríkunni er sér kapítuli! Í fyrsta lagi tekur það góðan hálftíma og þó nokkrar takkaýtingar að fá samband við venjulega manneskju en ekki vélmenni. Hjá stórum fyrirtækjum er ekki lengur manneskja sem svarar í símann heldur er vélmenni sent á mann í byrjun og vinsar úr þá veikustu. Það eruþeir hæfustu sem ná í gegn til að tala við manneskju af holdi og blóði! Mér tókst í fjórðu tilraun að ná sambandi við hana. Til þess að láta segja mér að það væri búið að loka á trygginguna okkar. Þar sem ég hváði og taldi mig vera tryggða var ég sett á bið í 15-20 mínútur. Konan kom aftur og sagði mér að hún hefði nú fundið trygginguna mína sem væri jú enn í gildi. Og þá byrjaði ævintýrið sem það var að skipta um lækni. Eftir símtal sem stóð í 60 mínútur var ég komin með tíma hjá manni sem ég get ekki enn stafað nafnið á fyrir ormana tvo og fullvissu frá konunni góðu um að þetta ætti allt að ganga smurt fyrir sig þaðan í frá...

HÚN LAUG!!!

Upp rennur dagur heimsóknarinnar. Byrjaði á stresskasti með eiginmanninum að leita að bólusetningarvottorðum stelpnanna frá Íslandi. Kvöldið áður sór eiginmaðurinn þess eið að vita nákvæmlega hvar þau væru svo við þyrftum ekki að stressa okkur á að leita að þeim með fyrirvara. Það var því ekki fyrr en á síðustu stundu sem hann fór að ná í pappírana til þess að komast að því að "vita nákvæmlega eitthvað" er ekki það sama hjá honum og mér. Góðum 10 mínútum síðar rukum við sveitt út í bíl með vottorðin og brunuðum á læknastöðina. Fundum skrifstofuna nokkuð auðveldlega í þessu gímaldi sem læknastöðin er (sjá mynd að ofan). Mundum þá að við gleymdum pappírunum frá skólanum heima svo eiginmaðurinn rauk aftur af stað. Á meðan byrjaði ég að fylla út pappírana x2 þar sem að börnin eru 2. Læknasaga foreldra, fæðingarþyngd barns, hvenær settist barnið upp, hvenær sagði hún fyrsta orðið, hvenær byrjaði hún að ganga o.s.frv. Ég skildi flesta reiti eftir auða, ekki man ég hvenær stelpurnar settust fyrst upp né hvenær þær sögðu fyrstu setninguna sína... Þegar ég er langt komin með pappírana er eiginmaðurinn kominn aftur eftir að hafa rokið heim, farinn aftur (út í bíl að sækja bleyjur og blautklúta) og kominn aftur. Þá kemur í ljós að tryggingin virðist enn vera óvirk og þess utan ekki skráð á nýju læknastöðina. Þannig að móttökuritarinn tekur til við að hringja í tryggingarfyrirtækið. Þegar hún hafði verið á bið í 45 mínútur vorum við búin að tapa geðheilsunni. Það tekur á að halda 2 ára og 4 ára stelpu við efnið í herbergi sem inniheldur ekkert skemmtiefni fyrir börn (óvænt þar sem þetta var barnalæknir). Ég tók málin í eigin hendur og hringdi sjálf í tryggingarnar. Náði í gegn. Við tekur Groundhog day samtal um tryggingu sem var ekki lengur í gildi, sumsé sama saga og daginn áður. Loks finnur hann okkur og trygginguna. 90 mínútum eftir bókaðan tíma erum við því komin inn á stofu með stelpurnar og inn kemur læknir sem er eldri en amma mín og hefði átt að fara á eftirlaun á undan henni... 8 bólusetningum og meira en 2 klukkustundum eftir að við gengum þarna inn bárum við grenjandi börn út af stofunni algjörlega miður okkar. Rúsínan í pylsuenda heimsóknarinnar? Jú, við eigum tíma aftur 1. apríl, þeir eru svo bólusetningaróðir hérna að stelpurnar vantar enn upp á til að mega fara í skóla. Sjibbí!

P.s. Ég þarf núna að finna tannlækni innan tryggingarinnar okkar, bóka tíma þar og vona að pappírarnir virki



Engin ummæli:

Skrifa ummæli